Náttúrufegurðin í Úthlíð svíkur engan. Vinsælar gönguleiðir eru víða í Úthlíðarlandi, vítt og breitt í gegnum birkifrumskóg og uppá fjöllin. Högnhöfðinn er þar stórfenglegastur. Þegar uppá hann er komið í um 1.018m hæð í blíðviðri sést í 12 sýslur efst frá Höfðanum sjálfum. Ekki má gleyma einu stórbrotnustu gljúfrum á Íslandi sem nefnast Brúarárskörð. Þegar komið er inn í Brúarárskörð tekur við mikið sjónarspil þar sem Brúaráin sést fossa útúr berginu af gífurlegum krafti. 
Bjarnarfell og Miðfell eru fögur lítil fell skammt frá bænum sem gaman er að glíma við og frá toppi þeirra er glæsileg útsýn um suðurland.

Árið 1998 gaf Ferðafélags Íslands út árbók sem nefndist Fjallajarðir og Framafréttur Biskupstungna eftir Gísla Sigurðsson ritstjóra og blaðamann frá Úthlíð, bróðir Björns sem nú býr þar.  Í þessari bók er fjallað á mjög skemmtilegan og greinargóðan hátt um allan vesturhluta Biskupstungna. Fjölmargar myndir prýða bókina. Árið 2003 gaf Gísli sjálfur út bókina Sögustaðir á Suðurlandi í bókaröð sinni Seiður lands og sagna. Síðustu kaflar þeirrar bókar fjalla um Úthlíðarjörðina. Sumt í umfjölluninni hér á eftir er unnið upp úr ofangreindum bókum Gísla.

Á kortinu hér að neðan má sjá umhverfi þeirra leiða sem hér er lýst. Sumar leiðanna hafa verið merktar með penna.


Rétt er að benda á að öllum er frjálst að ganga um Úthlíðarland og þó að nokkrum leiðum sé sérstaklega lýst hér er stundum gott að fara sínar eigin leiðir.  Hér á eftir verður fjallað um eftirfarandi gönguleiðir:

 


Kóngsvegur – Hrauntúnstjarnir
Frá Réttinni í Úthlíð er hægt er að fara í þægilega gönguleið í fallegu umhverfi eftir Kóngsveginum niður með Hrauntúnstjörnum.  Kóngsvegurinn var lagður árin 1906 og 1907 fyrir heimsókn Friðriks VIII danakonungs.  Hann lá frá Reykjavík um Þingvelli, Laugarvatn, austur yfir Brúará, fyrir ofan Úthlíðarbæinn, upp í Haukadal.  Þaðan austur yfir Hvítá niður hreppa út að Þjórsá. 

Veitingastaðurinn Réttin stendur við Kóngsveginn. Gengið er frá sundlaugarhúsinu, niður brekkuna og beygt svo til vinstri. Farið er í gegn um hlið og þaðan liggur vegurinn niður Hrauntúnslandið og út að Andalæk.  Frá veginum liggja ýmsar götur t.d. upp með Hrauntúnstjörnum og hægt er að ganga götu upp á Miðfellsveg og þaðan niður sumarbústaðarhverfið til baka að sundlauginni.

Miðfell – Básagil – Hnífagil
Miðfell er reisulegt fell fyrir miðju Úthlíðarhrauns. Fellið sést vel þegar komið er upp í Skyggnisskóg og er best að leggja bílum við Réttina og ganga eftir Miðfellsveginum í gegn um sumarbústaðahverfið að hliðinu sem markar endimörk sumarbústaðahverfisins. Eftir það liggur leiðin eftir torfærum slóða. Frá Réttinni eru ekki nema um 4 km að rótum Miðfells.

Af leiðinni að Miðfelli liggur vegaslóði til hægri upp með Básagili, upp Hnífavelli og inn að Hnífagili. Mjög fallegt er í Básagili, en þar eru uppsprettur Andalækjar u ndan Úthlíðarhrauni. Kvísl úr hrauninu hefur runnið niður gilið og upp með því. Nafnið Básagil er dregið af bergbríkum sem skaga út í gilið og mynda einskonar bása, kjarri vaxna. Hnífagil er fyrir ofan Básagil.  Ekki er vitað með vissu hvernig nafnið er til komið en sumir halda því fram að þar hafi fjallmenn haft fyrir venju að fara í hnífakaup á leiðinni í smalamennskur.

Oft er gengið á Miðfell upp frá Miðfellsflötum sem eru fyrir neðan fjallið að vestan. Mikið kjarr er í vestanverðu Miðfelli og því getur verið auðveldara að ganga upp á fellið innar, eða upp af Hnífavöllum. Af Miðfelli er ágætt útsýni til suðurs og vesturs, allt til Vestmannaeyja og einnig inn Svínahraun og upp að Langjökli. Í norðri byrgja þó Högnhöfði og Kálfstindarnir sýn og Bjarnarfellið í austri.  Það kemur sumum á óvart að upp á Miðfelli er lítið stöðuvatn sem reyndar verður mjög vatnslítið í þurrkatíð.

Auðvelt er að ganga umhverfis Miðfell og einnig er hægt að ganga frá Norðanverðu Miðfelli vegaslóða upp að Högnhöfða, þaðan vestur með Högnhöfða og út í Brúarárskörð.

Frá Hnífagili er ágæt gönguleið upp á Bjarnarfell og einnig er hægt að ganga inn með fjallinu og umhverfis það, sjá umfjöllun um Bjarnarfell hér á eftir.

Bjarnarfell
Bjarnarfell er ríflega 700 m hátt fjall austan við Úthlíð. Vinsælt er að ganga á fjallið og fjölmargar gönguleiðir eru upp á það.  Bjarnarfell er yfirleitt ekki mjög bratt en það sem helst hamlar göngufólki er þétt kjarr víða í hlíðum þess. Algengt er að ganga frá þjóðveginum fyrir austan brúna yfir Andalæk inn veg sem merktur er “Inn á Dal” og hefja uppgöngu þegar komið er að hlíðum fjallsins.

Einnig er hægt að ganga frá Miðfellsvegi yfir Andalæk fyrir neðan Básagil og þaðan upp á fjallið. Margir ganga upp á fjallið að austanverðu, frá Neðradal og ganga svo niður í Dalsmynni.

Ofan af Bjarnarfelli er mjög gott útsýni. Sérstaklega niður Biskupstungur og til hafs. Komist hefur til tals að setja upp kláf til að flytja fólk upp á topp fjallsins en óvíst er hvort sú framkvæmd sé arðbær þó hugmyndin sé skemmtileg.

Þá er skemmtileg en alllöng gönguleið af ganga frá Hnífagili inn með Bjarnarfelli að norðan og umhverfis fjallið. Ganga síðan fram svokallaða Kistu fyrir ofan bæina Helludal, Neðradal, Múla og Austurhlíð. Þessi leið er ágætlega fær en þó eru nokkur gil í fjallinu vestanverðu sem þarf að fara yfir.

Brúarárskörð – Högnhöfði
Hægt er að aka jeppaslóða inn Úthlíðarhraun að Högnhöfða. Þá er farið frá Úthlíðarbænum fyrir vestan fjósið og þaðan sem leið liggur upp upp í sumarhúsahverfið og inn hraunið. Vegurinn var endurbættur sumarið 2008 og er núna hægt að aka alveg inn í Högnhöfða. Frá Úthlíð inn að Högnhöfða eru um 10 km. Tekið er 1000 kr. vegagjald fyrir fer yfir veginn, en að sjálfsögðu er frítt að ganga þennan veg.

Brúará fellur úr Brúarárskörðum sem eru á milli Högnhöfða og Rauðafells. Áin er talin um 44 km löng  og vatnsmagnið 40 rúmmetrar á sek. Litlar þverár renna í Brúará og heita þær (talið að neðan) neðri-Vallá, efri-Vallá, Hrútá og svo eru það Kálfárnar, heimari og innri. Kallast þar Kálfársporðar og eru þeir ófáir smalarnir sem hafa átt sín fyrstu spor þar í smalamennskum. Lengst af rennur Brúará í djúpu gljúfri og eiga göngumenn eftir að heyra lætin í henni þar sem hún beljar fram.

Brúarárskörð eru eitt dýpsta gljúfur á Suðurlandi. Má benda á að þegar ekið er yfir Brúarárbrúna á leiðinni frá Laugarvatni að Úthlíð er vel þess virði að nema staðar og horfa til fjalla því Brúrarárskörðin sjást einna best þaðan úr byggð. Þá ber Hlöðufell í Skörðin, 1186 m hátt. Vestan megin við þau er Rauðafell 924 m og austan megin er Högnhöfðinn 1002 m .

Talið er að Skörðin hafi orðið til þegar gos var undir jökli og Högnhöfðinn varð til á síðasta stóra kuldaskeiði ísaldarinnar. Þá var Rauðafell þegar til. Síðar hefur jökullinn legið í Skörðunum lengi eftir að fjöllin voru komin upp úr honum og grafið þau enn dýpra.

Litlhöfðinn er lítill hnjúkur vestan undir Högnhöfða sem stendur í þeirri meiningu að hann sé líka “Höfði”. Gengið er upp snarbratta hlíðina sem margir hafa farið áður og er slóðin orðin ansi djúp. Það er mál manna að betra sé að fara beint upp þennan stíg sem er um 20 mín gangur en að fara að flækjast í gegn um kjarrið. Það er ansi þétt á köflum.

Skörðin eru 3-4 km löng. Nyrst er áin vatnslítil og liðast í fallegum bugðum eftir gili. Þarna skiptast á grastorfur og skriður og er landslagið allt hið hrikalegasta. Fyrst steypist áin í litlum og snotrum fossum niður í dýpri farveg og loks í háum fossi niður í þröngt og skuggalegt hyldýpi sem tekur vinkilbeygju til austur og ógnvekjandi er að líta niður í. Þetta sést vel af austurbrúninni við Kúadal.

Lítill og snarbrattur hnúkur ber í Skörðin og kallast hann Strokkur. Hann er 517 m og fer skriða úr hnúknum beint ofan í Skörðin. Þar er varasamt að fara yfir en ansi freistandi fyrir smala að stytta sér leið. Er það kallað Tæpistígur, sem er náttúrlega enginn stígur heldur varasöm leið utan í skriðunni.

Síðan liggur leiðin niður í Tangann svokallaða en þangað ættu flestir að fara sem leggja leið sína í Skörðin. Á leiðinni niður á Tangann eru greiðfærar skriður ofantil, síðan mosi og berjalyng, en neðantil er Tanginn fallega gróinn grasi. Þar er lítil uppsprettulind innan um dýjamosa, fegurð hennar er merkileg andstæða við stórbrotið umhverfið. Austast úr Tanganum sést framúr gljúfrinu og þar skynjar maður mikilfengleik þeirra og stærð. En til þess að sjá aðalfossinn sem ævinlega er í skugga, verður að ganga fram á grasivaxna brúnina við fossinn. Þar þarf ekki að vera hættulegt sé varlega farið. En fossinn sést ekki einu sinni vel þaðan.

Á leiðinni fram gljúfrið er best að fylgja rim sem liggur á milli gljúfursins og Kúadalsins en það er djúp og víðáttumikil kvos sem talið er að hafi verið eldgígur. Ofan við Kúadal er Ólafshnjúkur og á bak við hann slakkinn Ólafsdalur. Allt er þetta gróðursnautt land enda liggur þarna mikill snjór langt fram á sumar.

Fallhæð Brúarár í gegn um Skörðin er um 200 m, innst er hún í 420 m en þar sem hún kemur fram úr gljúfrinu er hún í 220 m.

Þar sem vegurinn að Högnhöfða endar eru kallaðar Höfðaflatir. Frá þeim hefst gangan upp á Höfðann.  Hægt er að hefja uppgöngu á suðvesturhorn höfðans strax og komið er upp á Litlhöfðann en sú leið er mjög skriðótt og seinfær.  Betra er að ganga upp með Brúarárskörðunum, upp á Ólafshnjúk og þaðan upp fjallið. Á þeirri leið er meira um bergklappir þar sem betra er að fóta sig en í skriðunum. Á vesturhluta Högnhöfða eru tveir hnjúkar sem kölluð eru Eyru. Talið er að nafnið Högnhöfði sé þannig til komið að menn hafi séð fjallið fyrir sér sem liggjandi kött með eyrun vísandi í vestur en stýrið í austur.

Til að komast alveg á toppinn þarf að ganga um 3 km inn eftir höfðanum á austurendann.  Það er nokkuð þægileg ganga yfir sanda og aura.  Oft er snjór upp á fjallinu fram eftir sumri og geta menn lent í því að ganga á sköflum upp á hæsta tindinn sem er austast á fjallinu. Uppi á háhöfðanum er geysimikill útsýnisstaður yfir suður- og vesturland. Einnig er í góðu veðri hægt að sjá austur að Vatnajökli og norður í Strandasýslu. Sagt er að í góðu skyggni sé hægt að sjá þaðan í 12 sýslur.

Hellisskarð – Hlöðufell
Þeir sem hyggja á meira en dagsferðir ættu að kynna sér leiðina upp Hellisskarð og upp á Hlöðuvelli við Hlöðufell.  Frá Úthlíð er hægt að ganga upp fyrir Miðfell, upp að Högnhöfða, síðan inn með höfðanum og upp Hellisskarðið sem liggur á milli Högnhöfða og Kálfstinda. Á veginum upp skarðið eru djúp úrrennsli og vegurinn víða grófur. Á Hlöðuvöllum er skáli þar sem hægt er að fá gistingu.  Einnig er þar ágæt aðstaða til að tjalda.  Duglegt göngufólk getur farið á einum degi þessa leið frá Úthlíð inn á Hlöðuvelli en það gætu verið ríflega 20 km.

Hlöðufell er 1180 m hár móbergsstapi. Norðan í fjallinu er sísnævi. Hlöðufell er hæst allra fjalla fyrir sunnan Langjökul. Það er hömrum girt en þó ágætlega kleift á einum stað, beint upp frá Hlöðuvöllum þar sem skáli Ferðafélagsins stendur. 

Á einum degi er síðan hægt að ganga til baka niður veginn á Rótarsandi (F337) og þaðan niður Brúarárskörðin. Af veginum á Rótarsandi á að vera hægt að sjá hjólför sem liggja niður í Brúarárskörðin enda er talsvert um að farið sé þarna á bílum.